Sjálfsmynd barna er mér alltaf afar hugleikin. Sjálfsmyndin hefur svo mikil áhrif á það hvernig einstaklingum vegnar í lífinu og öll viljum við að sjálfsmynd barnanna okkar mótist á jákvæðan hátt. Það eru ýmsir þættir í umhverfinu sem geta haft áhrif á mótun sjálfsmyndarinnar og því er mikilvægt að efla þá þætti sem byggja upp sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd barna. Ég hef tekið saman nokkra punkta sem geta hjálpað okkur að hafa jákvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar hjá börnum og einnig á samskipti okkar og tengsl við þau:
Setjum athyglina á þætti sem við viljum efla og styrkja
Til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd hjá börnum þurfum við að vera meðvituð um að við styrkjum þá þætti sem við veitum athygli og gæta þess að festast ekki í að ræða það sem þarf að laga. Með því eflum við sjálfstraust barnsins og hættan á að það festist í sjálfsniðurrifi minnkar.
Veitum næringu með snertingu og nærveru
Nærvera er það mikilvægasta sem við gefum barninu okkar. Þegar við knúsumst, nuddum tær eða sitjum þétt saman undir teppi í sófakúri, nærist heili okkar og líkami af ýmsum róandi boðefnum og tengslin styrkjast. Með þessu róum við taugakerfið og fyllum á orkutankinn bæði hjá barninu og okkur sjálfum.
Hjálpum barninu að hafa stjórn á tilfinningum sínum
Tilfinningar geta smitast yfir á aðra – bæði góðar og slæmar. Þegar barn er í uppnámi er auðvelt að verða fyrir tilfinningalegum áhrifum af upplifun þess. Við það getur myndast neikvæður spírall og allt fer að líta verr út en það er. Þegar þú heldur ró þinni, sýnir hlýju og lætur barnið finna að þú hafir trú á að allt fari vel, hjálpar þú því að róa eigin tilfinningar.
Verum fyrirmyndir - ræðum líðan okkar af hreinskilni
Leggið ykkur fram við að vera hreinskilin, án þess þó að deila með barninu því sem það hefur ekki þroska til að skilja. Barnið þolir vel að heyra ykkur segja að þið séuð svolítið leið eða illa fyrir kölluð. Ef þið eruð leið en kreistið fram bros og segið að allt sé í lagi, er ekki samræmi á milli þess sem þið segið og þess sem barnið skynjar. Þetta getur valdið óöryggi hjá barninu og það þarf að læra að allar tilfinningar eiga rétt á sér!
Setjum fókusinn á vegferðina fram yfir útkomuna
Það er algengt að lögð sé áhersla á árangur og markmið fram yfir það að huga að gildum og sjálfri vegferðinni. Þessar áherslur hafa aukist síðustu ár t.d. með alþjóðlegum könnunum og samanburði. Við þrífumst ekki vel þegar við erum mæld og vegin út frá stöðlum eða kröfu um að vera framúrskarandi. Það er öllum mikilvægt að standa sig vel og bæta sig en samanburður við aðra er ekki mannbætandi.
Setningar eins og „það er svo gaman að sjá hvað þú leggur þig fram“ ylja mun meira um hjartaræturnar en setningar á borð við: „það er svo ánægjulegt hvað þú fékkst góða einkunn“. Börn þurfa að finna að þau eru elskuð eins og þau eru og vegna þess að þau eru þau sjálf.